Úrskurðir í ferðamálum

Samkvæmt gögnum málsins keypti sóknaraðili ferð til Boston af varnaraðila. Tímabil ferðarinnar var frá 3. júní til 9. júní 2016. Sóknaraðili tilkynnti varnaraðila með tölvupósti, dags. 18. maí 2016, (sextán dögum fyrir áætlaða brottför) að sóknaraðili kæmist ekki í umrædda ferð. Sóknaraðili fór fram á að varnaraðili endurgreiddi honum ferðina að undanskyldu staðfestingargjaldi. Varnaraðili hafnaði ósk sóknaraðila um endurgreiðslu og vísaði máli sínu til stuðnings bæði í skilmála flugfélagsins sem ferðast átti með og hótelsins sem sóknaraðili hefði átt að gista á.

Sóknaraðili fer fram á endurgreiðslu á umræddri ferð að undanskildu staðfestingargjaldi að upphæð 25.000 kr. Heildarkrafa sóknaraðila er endurgreiðsla að upphæð 143.990 kr.

Samkvæmt gögnum máls keypti sóknaraðili alferð af varnaraðila hinn 12. maí 2015, fyrir sjálfa sig og einn ferðafélaga. Um var að ræða tveggja vikna alferð með „öllu inniföldu“ með gistingu á hótel Fergus Tobago á Mallorca frá 30. júní 2015 til 14. júlí 2015. Ferðin var keypt í einu lagi og verð hennar var 399.280 kr.

Sóknaraðili var ósáttur við hótelið og kvartar m.a. undan hávaða, sóðaskap og ófullnægjandi aðstæðum á hótelinu. Einnig gerir sóknaraðili athugasemdir við starfsfólk flugfélagsins og fararstjóra í umræddri ferð. Samkvæmt gögnum máls þá bauð varnaraðili sóknaraðila fría dvöl í viku á öðru hóteli, afnot af bílaleigubíl og 15.000 kr. inneign á flugi fyrir sóknaraðila og samferðarmann. Sóknaraðili hafnaði þessu tilboði, en þá bauð varnaraðili sóknaraðila 40.000 kr. endurgreiðslu á mann, eða samtals 80.000 kr. Sóknaraðili gerir athugasemd við að honum séu boðnar sömu bætur fyrir tveggja vikna dvöl og þeim, sem voru á hótelinu í eina viku, var boðið.

Samkvæmt framkomnum gögnum var sóknaraðili, sem er sænskur ríkisborgari, gestur á hóteli varnaraðila frá 9. ágúst til 13. ágúst 2015. Hinn 10. ágúst fór sóknaraðili í heilsulind sem staðsett var á hótelinu, en hann var þá í inniskóm sem hann fékk frá varnaraðila, en á hótelherbergjum varnaraðila er að finna inniskó og baðslopp. Sóknaraðili rann til og féll í gólfið þegar hann kom inn í búningsklefa heilsulindarinnar. Við fallið kom m.a. þungt högg á hné sóknaraðila og kallaður var til sjúkrabíll til að flytja sóknaraðila á sjúkrahús til aðhlynningar. Vegna þeirra áverka sem sóknaraðili hlaut á hné vegna fallsins var honum ómögulegt að mæta í hestaferð sem hann hafði áður bókað og greitt fyrir, en sóknarðaðila var ómögulegt að ganga óstuddur. Þegar sóknaraðili kom aftur til síns heimalands leitaði hann sér frekari læknisaðstoðar og í ljós kom að sprunga hafði myndast í hné sóknaraðila. Að sögn sóknaraðila þurfti hann, vegna ofangreindra áverka, að taka sjúkraleyfi frá vinnu eftir að heim var komið.

Sóknaraðili krefst endurgreiðslu á þeim hluta sjúkrakostnaðar sem sjúkratryggingar hans greiddu ekki, greiðslu bóta fyrir vinnutap ásamt greiðslu miskabóta. Einnig krefst sóknaraðili endurgreiðslu á hótelgistingu og hestaferð. Heildarfjárkrafa sóknaraðila er 4.132 evrur.  

Sóknaraðili gerði samning við varnaraðila um kaup á alferð sem fólst m.a. í flugi til Birmingham þann 30. apríl, flugi til Keflavíkur hinn 4. maí, gistingu í fjórar nætur, þremur morgunverðum ásamt sjö golfhringjum. Sóknaraðili greiddi fyrir sinn hlut í ferðinni 164.900 kr. Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila með tölvupósti, dags. 28 apríl 2016, um rúmlega átta klukkutíma seinkun á brottfarartíma á fluginu til Birmingham. Sóknaraðili ákvað þá að fara ekki í umrædda ferð og taldi að um verulega breytingu á ferðinni hafi verið að ræða sem réttlætti endurgreiðslu á ferðinni eða skapaði rétt til að fá aðra sambærilega ferð og upphaflegur samningur hafi kveðið á um. Aðila greinir á um hvort um verulega breytingu á alferð hafi verið að ræða sem réttlætti riftun sóknaraðila á ferðinni og hvort varnaraðila beri að greiða skaðabætur í samræmi við Evrópureglugerð nr. 261/2004 um réttindi flugfarþega.

X leigði bifreið í langtímaleigu af bílaleigunni F. Á leigutímanum var ekið á bifreiðina þannig að nokkuð tjón hlaust af og stungið af. Ekki tókst að hafa uppi á tjónvaldi og ljóst að ABÍ mundi ekki bæta tjónið. Fyrir nefndinni deildu aðilar fyrst og fremst um það hvort X bæri að bæta tjónið en einnig var töluvert deilt um fjárhæð viðgerðarkostnaðar. Nefndin leit svo á að þar sem tjónið félli undir kaskótryggingu bifreiðarinnar, en í samningi aðila var tekið fram að sjálfsábyrgð vegna hennar væri 100.000 krónur, bæri X að greiða tjónið. Þá hefði X ekki sýnt fram á að kostnaðurinn sem F krafðist, 77.977 krónur, væri óheyrilega hár. Hins vegar leit nefndin til þess að einhverjar rispur hefðu verið á bifreiðinni við upphaf leigutíma og taldi að bílaleigan ætti ekki að hagnast á tjóninu. Var X því gert að greiða ¾ hluta tjónsins en ¼ skyldi bílaleigan bera sjálf. 

X leigði bíl af F en meðan á leigutímanum stóð varð bifreiðin fyrir tjóni. Ekki var deilt um kostnað vegna tjónsins fyrir nefndinni, en hins vegar kvartaði sóknaraðili yfir því að hann hefði þurft að útvega sér bíl frá annarri bílaleigu eftir að bifreiðin varð óökufær vegna tjónsins. Nefndin skoðaði skilmála F en þar kom fram að bílaleigunni bæri að afhenda aðra bifreið kæmi til bilunar. Ekki var að finna neinar takmarkanir á þeirri skyldu eftir því hvers eðlis bilunin væri. Á þeim grundvelli, og þar sem X hafði þegar greitt F leigu vegna fyrirhugaðs leigutíma, taldi nefndin að F bæri að endurgreiða F kostnað sem hann varð fyrir vegna leigu á annarri bifreið. 

Sóknaraðilar X og Y keyptu sér gistingu í tvær nætur á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Vegna hávaða frá nærliggjandi bar gátu þau ekki sofið fyrri nóttina og ákváðu því að flytja sig annað um morguninn. Fyrir nefndinni kröfðust þau fullrar endurgreiðslu gistingarinnar. Nefndin taldi að upplýsingar sem gefnar væru upp af hálfu hótelsins gæfu sterklega til kynna að herbergin væru hljóðeinangruð og því hefðu sóknaraðilar, jafnvel þó hótelið væri staðsett í miðbænum, ekki mátt vænta svo mikils hávaða sem raun varð á. Var niðurstaða nefndarinnar því sú að sóknaraðilar ættu rétt á nokkrum afslætti af verði gistingarinnar jafnvel þótt ekki væri fallist á kröfu um fulla endurgreiðslu. 

X, Y, Z og Þ keyptu alferð af F. Þau töldu sig hafa pantað tvö tveggja manna herbergi en í ljós kom að um var að ræða tveggja manna herbergi með rúmum fyrir fjóra. Þau þurftu því að borga sérstaklega fyrir að fá annað herbergi til afnota. Fyrir nefndinni kröfðust þau þess að fá þann kostnað endurgreiddan auk þess sem þau kröfðust bóta, bæði vegna tekjutaps og miska. Nefndin féllst á það með sóknaraðilum að óljóst væri hvað „tvíbýli“ væri, og að sóknaraðilar hefðu mátt vænta þess að fá tvö aðskilin herbergi til afnota. Því hefðu upplýsingar ferðaskrifstofunnar ekki verið nægilega skýrar að þessu leyti og því var ferðaskrifstofunni gert að endurgreiða sóknaraðilum kostnaðinn við að fá annað herbergi. Hvað varðari kröfur sóknaraðila um miska- eða skaðabætur gerði nefndin töluverðar athugasemdir við að þær kröfur væru illa rökstuddar og að engin gögn um tjón lægju fyrir nefndinni. Nefndir rakti því næst öll þau lagaákvæði sem kæmu til álita en taldi hvorki lagaskilyrði til greiðslu miska- né skaðabóta. Hins vegar ættu sóknaraðilar rétt á nokkrum afslætti vegna óþæginda, þó hans hefði ekki verið krafist, og var hann metinn kr. 7.500 vegna hvers einstaklings. 

X keypti tveggja vikna alferð með „öllu“ inniföldu af F fyrir sig og þrjá fjölskyldumeðlimi. Hún kvartaði undan ýmsu á hótelinu, þ.e. matnum, almennum sóðaskap og drykkjulátum annarra hótelgesta, og eftir vikudvöl var hún og fjölskylda hennar flutt á annað hótel. Eftir að X kvartaði við F var hópnum boðin, í sárabætur, vikugisting á hóteli á Mallorca næsta sumar auk inneignar upp í flugferð. X hafnaði því boði hins vegar og krafðist þess að fá endurgreitt sem svaraði verði vikugistingar. Nefndin gerði athugasemdir við að X styddi kröfu sína ekki neinum gögnum á borð við myndir eða vitnisburði en taldi þó ljóst, þar sem F hafði þegar boðið bætur, og mótmælti í sjálfu sér ekki lýsingu X á hótelinu, að sitthvað hefði verið athugavert við aðbúnaðinn. Voru X og ferðafélögum hennar því ákvarðaðar 120.000 kr. samtals í afslátt af verði ferðarinnar. 

X tók á leigu bíl hjá F en eftir að hafa ekið bílnum í ellefu daga og yfir 2.000 km kom fram olíuleki og áætlaður viðgerðarkostnaður var hátt í 1200 þúsund kr. Meirihluti nefndarinnar taldi deilu aðila snúast um hvort X hefði valdið tjóninu, þ.e. hefði orðið fyrir einhvers konar óhappi meðan á leigutíma stóð og bæri að greiða bætur vegna þess. Taldi meirihlutinn svo vera en lækkaði kröfu F þó nokkuð, t.a.m. þar eð vsk. af fjárhæðinni væri ekki hluti tjónsins. Jafnframt var krafa F lækkuð þar eð ýmislegt væri aðfinnsluvert við afgreiðslu málsins af hálfu fyrirtækisins. Var X því gert að greiða rúmlega 600 þúsund kr. Einn nefndarmanna skilaði þó sératkvæði og vildi vísa málinu frá þar eð krafa F hefði ekki komið nægilega skýrt fram á fyrri stigum og ágreiningurinn fyrir nefndinni snerist aðeins um sjálfsábyrgð vegna kaskótryggingar. Þar sem ljóst væri að tjónið væri ekki bótaskylt samkvæmt kaskótryggingu væru svo í raun engir hagsmunir af því að fá skorið úr þeirri kröfu. 

A keypti alferð fyrir tvo af heimasíðu X. Eftir að kaupin höfðu gengið í gegn kom í ljós að um mistök í bókunarkerfi hafði verið að ræða og A verið seldar ferðirnar á mun hagstæðara verði en þær áttu að kosta. Nefndin úrskurðaði að bindandi samningur hefði verið kominn á og X bæri að afhenda ferðina á því verði sem þegar hafði verið greitt.

X pantaði og greiddi fyrir alferð á vegum F. Hann þurfti þó að afpanta ferðina vegna veikinda og urðu deilur um það hve mikla endurgreiðslu hann ætti að fá frá ferðaskrifstofunni.

Í skilmálum ferðaskrifstofunnar sagði að a.m.k. 50% af verði ferðar væru óafturkræf ef ferð væri afpöntuð með svo skömmum fyrirvara. X taldi sig eiga rétt á 50% endurgreiðslu en ferðaskrifstofan hafnaði allri endurgreiðslu. Nefndin leit svo á að skilmálar ferðaskrifstofunnar kvæðu ekki á um rétt til 50% endurgreiðslu og að F ætti rétt á greiðslu vegna þess kostnaðar sem sýnt væri fram á að ferðaskrifstofan hefði orðið fyrir. Var því talið rétt að X greiddi þann kostnað sem F varð fyrir vegna afpöntunarinnar en að F skyldi endurgreiða honum afganginn.
 

Sóknaraðilar, A, B, C og D keyptu sér alferð með F. Skömmu fyrir brottför fengu þau að vita að ekki yrði gist á því fjögurra stjörnu hóteli sem þau pöntuðu upphaflega heldur á fimm stjörnu hóteli. Sóknaraðilar gerðu ýmsar athugasemdir við aðbúnaðinn á síðarnefnda hótelinu, gardínur á herbergjum hafi hangið lausar, baðkar verið stíflað, erfitt að opna og loka hurðum o.s.frv. Nefndin gerði nokkrar athugasemdir við málatilbúnað bæði sóknaraðila og ferðaskrifstofunnar og rakti að auki viðeigandi lagaákvæði. Nefndin féllst svo á að ágallar á aðbúnaði hótelsins hefðu valdið sóknaraðilum einhverjum óþægindum og ákvarðaði þeim 12.000 kr. afslátt vegna þess.

A og B keyptu sér alferð með F. Vegna fyrirhugaðs verkfalls flugvirkja var heimfluginu flýtt og ferð  þeirra styttist því um eina nótt auk þess sem ferðaáætlun raskaðist eitthvað. Nefndin rakti viðeigandi lagaákvæði og taldi sóknaraðila eiga rétt á afslætti þar sem ferðin hefði ekki verið í samræmi við samning aðila. Þótti hann hæfilega metinn 17.500 kr. fyrir hvorn sóknaraðila.

A fór með eiginmanni sínum í tveggja vikna alferð á vegum F. A var mjög ósátt við hótelherbergið sem þau dvöldu í seinni vikuna og taldi það í engu samræmi við kynningar F á hótelinu. F hafði boðið A og fjölskyldu hennar 50.000 kr. inneign í leiguflug en A féllst ekki á það og vildi endurgreiðslu á gistingunni og leitaði því til nefndarinnar. Nefndin taldi að hótelherberginu og kynningu á því hefði verið ábótavant og taldi að  F bæri að gefa A afslátt af verði ferðarinnar, í formi endurgreiðslu að upphæð 50.000 kr.

Pages